Sjö leiðir til að viðhalda áhugahvötinni til að hreyfa sig

Print
Sjö leiðir til að viðhalda áhugahvötinni til að hr

Kostir þess að hreyfa sig hafa verið tíundaðir við okkur öll þúsund sinnum og við vitum alveg hvað væri æskilegt að gera, en það getur verið afar auðvelt að finna afsakanir. „Ég hef það svo notalegt í sófanum“, „uppáhaldsþátturinn minn er í sjónvarpinu“ eða „mér sýnist vera svo kalt úti“.

Við höfum heyrt þær allar áður. Hvernig er þá unnt að vekja og varðveita áhugahvötina til að standa á fætur og hreyfa sig síðan reglulega?

 1. Áætlun.
  Þegar erill einkennir lífið getur verið erfitt að trúa því að unnt sé að finna tíma fyrir daglega hreyfingu. Settu hreyfinguna í forgang og skipuleggðu hana sem hluta af föstum verkefnum dagsins. Ekki hafa hana valfrjálsa. Einnig gengur betur ef hreyfingin er sett á dagskrá á þeim tíma dags sem þú ert líklegri til að hafa ánægju af henni. Ef þér finnst erfitt að koma þér á fætur á morgnana, meira að segja þegar best liggur á þér, skaltu til dæmis ekki reyna að hreyfa þig á þeim tíma. Reyndu frekar að nota hádegishléið eða tímann eftir vinnu.

 2. Komdu þér í æfingagallann.
  Fyrsta skrefið (og oft það erfiðasta) er einfaldlega að koma sér í æfingafötin og skóna. Þegar því er lokið er mun auðveldara að koma sér af stað. Enn betra er að dekra við sig með einhverju nýju. Það kemur á óvart hversu mikil hvatning getur verið fólgin í því að prófa nýja hlaupaskó, æfingaföt eða einhverja nýja „græju“. Auk þess lítur þú vel út og þér líður vel!

 3. Tilbreyting er bráðnauðsynleg.
  Ekki hlaupa alltaf sömu leiðina, prófaðu að hjóla í staðinn eða skiptast á laugum í sundinu. Viðhaltu áhuganum með því að breyta hluta af æfingatörnunum reglulega svo þér fari ekki að leiðast. Líkamsræktarstöðin getur fljótt orðið alveg líflaust umhverfi. Ef hún er þinn æfingavettvangur skaltu því skapa tilbreytingu með því að hreyfa þig einstaka sinnum utan dyra.

 4. Gerðu hreyfinguna að félagslegum viðburði.
  Hreyfðu þig með vinum, hlæið saman og þá haldið þið hvort öðru við efnið. Vinir veita stuðning, geta bent á jákvæðar breytingar í fari þínu og gert þetta allt skemmtilegra! Þú gætir einnig valið að skrá þig í líkamsræktartíma eða ganga í íþróttalið í nágrenninu. Ef þú þrífst á keppni eru liðsíþróttir frábærar. Það sama má segja um að æfa sig með einhverjum sem er aðeins betri en þú svo þú þurfir ávallt að gera þitt ýtrasta til að halda í við félagann.

 5. Finndu eitthvað til að dreifa huganum.
  Tónlist eða spjall við vini dreifir huganum meðan þú hreyfir þig. Þú gætir gleymt þér og hreyft þig lengur en þú ætlaðir eða lokið áfanganum hraðar en þú hélst að þú gætir. Ef þú ert heima skaltu prófa að hreyfa þig meðan þú horfir á sjónvarpið eða í auglýsingahléinu.

 6. Settu þér raunhæf markmið.
  Þú ert kannski ekki með maraþon á prjónunum en samt er mikilvægt að setja sér markmið og koma þeim í framkvæmd til að halda áhuganum sívakandi. Hafðu þau samt raunhæf! Ekki setja markið of hátt miðað við núverandi getu þannig að þú náir því aldrei. Skrifaðu markmiðin niður og mundu að fara reglulega yfir þau eftir því sem hreysti þín eykst.

 7. Ekki gleyma að verðlauna þig.
  Persónulegt markmið þitt gæti verið að bæta einum til tveimur kílómetrum við hlaupavegalengdina eða losa þig við nokkur kíló, en þegar þú nærð því og frammistaðan er eftir óskum skaltu verðlauna þig. Þú gætir gefið þér frídag eða keypt nýjar gallabuxur. Leyfðu stoltinu að njóta sín.is-IS | 19.11.2017 09:27:53 | NAMP2HLASPX01