Vökvabúskapur og hreyfing

Print
Vökvabúskapur og hreyfing

Um það bil 60-70% af mannslíkamanum eru gerð úr vatni og því er óhætt að segja að vatn sé ómissandi til að komast lífs af. Það á þátt í að tempra líkamshita, gerir okkur kleift að anda, skiptir sköpum fyrir meltingu og útskilnað úrgangsefna og hjálpar líkamanum að hreyfa sig, svo örfá dæmi séu tekin!

Ráðlagt er að drekka 8-10 glös af vatni á dag, en við hreyfingu eða í heitu umhverfi þurfum við að drekka meira því þá svitnum við meira.

Nægir þá vatn eitt og sér? Þurfum við kannski íþróttadrykki til að halda vökvabúskapnum í réttu horfi?
Íþróttadrykkir eru góðir til að tryggja líkamanum nægilegan vökva og orku ef stunduð er afar erfið hreyfing lengur en í klukkustund. Ef þú stundar ekki svo mikla líkamsþjálfun er venjulegt kranavatn hins vegar fullgott.

Hvað er það sem einkennir íþróttadrykk?
Vel samsettir íþróttadrykkir (þ.e. drykkir með söltum og kolvetnum) innihalda samkvæmt skilgreiningu rétt magn af kolvetnum (5-8 g/lítra) og söltum (eins og natríum og kalíum) til að halda vökvabúskapnum í góðu horfi og endurheimta það sem tapast hefur úr líkamanum við áreynsluna.

Vissir þú eftirfarandi…
Rannsóknir hafa sýnt að svo lítið sem eitt prósent vökvaskortur getur valdið meiriháttar breytingum á líkamshita og tvö prósent vökvaskortur dregur verulega úr frammistöðu! Til að athafnagetan sé eins og skyldi skiptir því meginmáli að tryggja líkamanum nægilegan vökvaforða.

Aðrir drykkir sem innihalda mikið magn af kolvetnum (eins og Lucozade, Red Bull og gosdrykkir) hindra að vatn komist hratt inn í blóðrásina og geta því hægt á endurnýjun vökvaforðans. Slíkir drykkir henta ekki á undan áreynslu.

Ef þú stundar erfiðar æfingar skaltu hagnýta þér kosti góðra íþróttadrykkja. Ef þú leggur ekki verulega mikið á þig í líkamsræktinni, en drekkur samt slíka drykki að staðaldri, geta þeir hins vegar leitt til þess að þú þyngist út af aukakolvetnunum sem þeir innihalda.

Ef þér líkar ekki bragðið af kranavatni skaltu setja út í það sítrónu- eða appelsínusneið eða mintugrein til að bragðbæta það án þess að bæta út í það þeim hitaeiningum sem þú fengir t.d. úr ávaxtaþykkni.

Hollráð um vökvaneyslu fyrir hreyfingu

  • Gættu þess að koma vökvabúskapnum í gott horf áður en þú hreyfir þig — byrjaðu að drekka vökva u.þ.b. 2 klst. fyrir áreynslu.
  • Fylltu reglulega á vökvaforðann meðan á hreyfingu stendur.
  • Mundu ávallt að endurheimta vökva eftir áreynslu – það skiptir sköpum til að jafna sig. Reyndu að drekka eitt til tvö glös á klukkustund þar til þvagið er aftur orðið ljóst.


is-IS | 18.7.2019 02:51:30 | NAMP2HLASPX03