Borðaðu rétt, sofðu rótt

Print
Borðaðu rétt, sofðu rótt

Góður nætursvefn ætti að vera eitt það auðveldasta og eðlilegasta sem við getum tekið okkur fyrir hendur. Erilsamur lífsstíll og þéttskipuð dagskrá minnka hins vegar líkurnar á góðu mataræði og slæmar fæðuvenjur geta hindrað okkur frá því að ná gæðasvefni.

Hér í framhaldinu gefur Dr. Luigi Gratton nokkur hollráð um góða næringu sem stuðlar að góðum nætursvefni.

„Þegar annríkið er mikið borðum við gjarnan minna en æskilegt væri yfir daginn og síðan miklu meira en við þurfum á kvöldin. Þetta er alveg gagnstætt við það sem við ættum að gera,“ segir Luigi Gratton, M.P.H., sem er forstöðumaður fræðslusviðs Herbalife um næringarmál.

Luigi bendir fólki á að vera meðvitað um áhrif sumra matvæla á svefnmynstur. Mjög próteinrík matvæli örva framleiðslu efna í heilanum sem viðhalda árvekni og stórar máltíðir rétt fyrir svefninn geta leitt til meltingartruflana og brjóstsviða – og í sameiningu er þetta svo allt uppskriftin að vökunótt.

Skemmri tíma tekur að melta fitusnauðar og kolvetnaríkar máltíðir og þær örva framleiðslu annarra efna í heilanum – efna sem stuðla að slökun og auðvelda svefn. Því er best að velja próteinríkan morgunverð og hádegisverð til að halda vöku sinni og einbeitingu yfir daginn og geyma kolvetnin fyrir kvöldverðinn.

Ef þú ert eins og flestir hefur koffín örvandi áhrif á þig og því má gera ráð fyrir að óskynsamlegt sé fyrir þig að fá þér kaffibolla rétt fyrir háttatíma. Bæði koffín og áfengi geta truflað eðlilegt svefnmynstur. Þér gæti því tekist að sofna, en ekki í langan tíma. Fyrir vikið verður erfitt að komast á dýpsta svefnstigið sem gefur bestu hvíldina. Þrátt fyrir fullan átta tíma svefn getur þú samt vaknað kraftlaus í morgunsárið. Auk þess eru allar líkur á að þú vaknir vegna fullrar þvagblöðru því bæði koffín og áfengi eru vatnslosandi efni.

Hvort rétt sé fyrir þig að fá þér snarl fyrir svefninn eða ekki veltur á venjulegu dagsmynstri þínu. Ef þú borðar lítinn og léttan kvöldverð (og snemma) er í góðu lagi að fá sér létt snarl, ef þér finnst það hjálpa þér að sofa og þú hefur ráð á aukahitaeiningunum. Kalrík fæða á borð við mjólk og jógúrt er góður valkostur því kalk stuðlar að slökun í vöðvunum.

Góð næring fyrir góðan nætursvefn:

  • Borðaðu léttari kvöldverð þar sem þungamiðjan er salat, grænmeti, ávextir, heilkorn og baunir.
  • Fáðu þér skál af linsubaunasúpu með salati og síðan ávexti í eftirrétt.
  • Ef þú veist að koffín heldur fyrir þér vöku skaltu forðast koffíndrykki í 6-8 klukkustundir áður en þú ferð í háttinn.
  • Gættu þess að halda áfengisdrykkju í hófi til að forðast röskun á svefni.
  • Drekktu vökvann sem þú þarft aðallega yfir daginn og dragðu úr honum eftir kvöldverð. Ef þú þarft að taka lyf á háttatíma skaltu einungis nota örlítið vatn til að hjálpa þér að kyngja þeim.
  • Ef þig langar í snarl fyrir háttinn skaltu m.a. borða fæðu sem er auðug af kalki til að stuðla að vöðvaslökun.
  • Bolli af flóaðri mjólk er aldagamalt húsráð gegn svefnleysi, og ekki að ástæðulausu.


is-IS | 20.8.2019 17:23:53 | NAMP2HLASPX03